Belgískir lögfræðingar ráku upp stór augu í liðinni viku þegar þeir skönnuðu yfir nýuppfært lagasafn landsins. Ástæðan var nokkuð óvenjuleg handvömm sem hafði átt sér stað en inn í lagabálk um verðlagningu lyfja og lækningatækja hafði slæðst uppskrift um heppilega leið til að matreiða aspas. Sagt er frá á vef BBC .

„Ég hef fengið nóg af fólki sem segir að lagasafnið sé gagnslaust. Það má finna allt hérna: Lög, ákvarðanir og uppskriftir. Nefndu það bara,“ sagði lögmaðurinn Morgan G. Moller en hann vakti athygli á mistökunum á Twitter síðu sinni. Tók hann fram að þetta væri í fyrsta sinn sem hann hefði séð mistök sem þessi.

Þrátt fyrir að uppskriftin, sem var í sex skrefum og endaði á „Bon Appétit!“, hafi verið birt með stjórnskipulega réttum hætti þá var talið að lagagildi hennar væri ekki neitt. Að mati stjórnvalda þar ytra var engin þörf á að fella þennan part út með lagabreytingu eða brottfallsreglugerð þar sem um augljós mistök væri að ræða. Uppskriftin hefur nú verið fjarlægð úr lagasafninu.