Aðskilnaður á fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi kæmi illa við um 20 banka innan aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB). Þýski bankinn Deutsche Bank kæmi verst út úr því ásamt nokkrum frönskum bönkum auk banka í Bretlandi og á Norðurlöndunum, samkvæmt umfjöllun Reuters-fréttastofunnar um tillögur Erkki Liikanen, seðlabankastjóra Finnlands. Liikanen leiddi hóp sérfræðinga sem fenginn var til að ráðleggja framkvæmdastjórn ESB um skipulag bankastarfsemi til að tryggja að fjármálakreppa og bankahrunið fyrir fjórum árum endurtaki sig ekki. Þá var markmið hópsins að finna leiðir til að forða skattgreiðendum frá því að þurfa að taka á sig skellinn.

Liikanen lagði skýrsluna fyrir framkvæmdastjórn ESB í gær. Reuters-fréttastofan segir hugsanlegt að framkvæmdastjórnin leggist yfir málið um mitt næsta ár. Hins vegar sé ólíklegt að tillögurnar verði lagðar óbreyttar fram.

Hinir bankarnir sem gætu komið illa undan uppskiptingunni eru BNP Paribas og Societe Generale í Frakklandi, Credit Agricole, Unicredit, Intesa Sanpaulo, Nordea, Danske Bank, Commerzbank og LBBW auk þess sem hugsanlega komi uppstokkunin niður á Santander, SEB, Swedbank, KBC og fjórir aðrir. Þá er búist við að nokkrir breskir bankar muni finna fyrir uppstokkuninni. Þar á meðal eru Barclays, Royal Bank of Scotland, HSBC og Standard Chartered.