Upptaka evru er ekki möguleg án inngöngu í Evrópusambandið sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á sameiginlegum blaðamannafundi sínum og Geirs H. Haarde forsætisráðherra í höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar ESB, í dag.

Geir og Barroso snæddu saman hádegisverð í dag og ræddu ýmis mál. Geir sagði þegar fréttamaður frá Sviss spurði út í mögulega Evrópusambandsaðild Íslands að þetta væri spurning um kosti og galla. Gallarnir væru fleiri en kostirnir. Afstaða hans til aðildar hefði því ekki breyst. Málið væri auk þess ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarflokkanna.

Geir sagði enn fremur á fundinum að samband Íslands og ESB væri gott á grundvelli EES-samningsins og Schengen. Þeir samningar hefðu reynst mjög vel.