Flutningarisinn UPS tilkynnti í morgun að það hefði forpantað 125 Semi vörubíla frá rafbílaframleiðandanum Tesla en Viðskiptablaðið fjallaði um það nýlega þegar vörubílarnir voru kynntir til sögunnar. Þetta er stærsta pöntun sem gerð hefur verið á bílunum hingað til og slær út metpöntun PepsiCo sem pantaði 100 Semi vörubíla í síðustu viku.

Sífellt bætast við stór nöfn í flutningabransanum í hóp þeirra sem forpantað hafa bílana en meðal þeirra eru Anheuser-Busch, móðurfyrirtæki Budweiser, Walmart, JB Hunt og Meijer. Greinandi fjárfestingabankans Morgan Stanley hefur áætlað að forpantanir í heildina geti verið fleiri en 1.200.