*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 8. janúar 2017 12:02

Úr erfiðleikum í útrás

Veitingakeðjur landsins finna líkt og margir fyrir uppgangi í þjóðfélaginu. Þrjár keðjur greiddu eigendum sínum samanlagt um milljarð króna í arð á síðasta ári.

Ritstjórn

Íslenskir neytendur eru sólgnir í skyndibita, það kemur því ef til vill ekki á óvart að umfangsmiklar skyndibitakeðjur á landinu hafa skilað góðum hagnaði að undanförnu. Með það að markmiði að gera nánari grein fyrir þróun markaðsins skoðaði Viðskiptablaðið þrjú félög sem hafa verið umsvifamikil á þessu sviði veitingageirans: FoodCo,sem heldur utan um starfsemi sex þekktra skyndibitastaða, Dominos og KFC. Samanlagt greiddu þessar keðjur hluthöfum sínum um milljarð í arð á síðasta ári.

200 milljóna arðgreiðslur

Félagið Pizza-Pizza ehf. rekur pitsastaðinn Dominos. Félagið á einnig 60% eignarhlut í Pizza Pizza A/S í Noregi og 51% eignarhlut í PP Telemark og Vestfold A/S í Noregi sem stofnað var árið 2015 og er því hluti af samstæðureikningi ársins 2015.

Félagið átti í töluverðum rekstrarörðugleikum á árunum eftir efnahagshrun, en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nýir eigendur tekið við rekstrinum. Þrír hluthafar eiga yfir 10% eignarhlut í félaginu, Eyja II fjárfestingarfélag ehf. með 60,2% hlut, Högni Sigurðsson með 19% hlut og Birgir Örn Birgisson með 10,5% hlut. Birgir er jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Árið 2015 gerði stjórn félagsins tillögu um að greiddur yrði arður til hluthafa að fjárhæð 200 milljónir króna á árinu 2016.

Tækifærin eru fjölmörg

 „Við höfum verið að finna fyrir uppsveiflunni í þjóðfélaginu og erum mjög sátt við gengi fyrirtækisins um þessar mundir,“ segir Birgir. „Það komu nýir eigendur að félaginu árið 2011 og síðan þá hefur verið samfelldur og góður vöxtur, þar af 15% vöxtur á síðasta ári. Við erum því mjög sátt við þróunina. Þessi vöxtur kemur hins vegar á sama tíma og ýmsir kostnaðaraukar hafa verið að bætast við á mismunandi vígstöðvum og má þar helst nefna skarpar launahækkanir og verðhækkanir á innlendum vörum,“ segir Birgir.

Spurður um samdrátt í hagnaði milli áranna 2014 og 2015 útskýrir Birgir að fyrirtækið hafi á tímabilinu opnað dótturfélag í Noregi. „Það er gríðarleg fjárfesting að opna í nýju landi enda þurfum við að byggja upp búðir, vinna markaðsstarf og vinna í því að ná þeirri stærðarhagkvæmni sem á endanum skilar þér hagnaði. Svo opnuðum við auk þess búð í Svíþjóð á síðasta ári og stefnum að því að opna mun fleiri á komandi misserum, það eru því mjög spennandi tímar fram undan. Þetta eru gríðarlega stórir markaðir og tækifærin fjölmörg.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.