Tap ársins nam 726 milljónum króna að teknu tilliti til neikvæðrar matsbreytingar fjárfestingaeigna að fjárhæð 843 milljóna króna og reiknaðs tekjuskatts. Hagnaður síðasta árs nam 1.668 milljónum króna og ræðst breytingin á milli ára af fjármagnsliðum.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og matsbreytingu fjárfestingaeigna (EBITDA) nam 860 milljónum króna samanborið við 626 milljónir króna árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 2006 námu heildareignir félagsins 17.327 milljónum króna og bókfært eigið fé nam 4.073 milljónum króna og eiginfjárhlutfall því um 24%.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kemur fram að afkoma ársins er viðunandi að mati stjórnenda Landsafls hf. en lykilstærðir í rekstri félagsins og sjóðstreymi hafa vaxið og eru mjög traustar. Horfur í rekstri félagsins eru ágætar, endanleg niðurstaða í framtíðinni mun þó meðal annars ráðast af skilyrðum á fjármagns- og leigumörkuðum.

Landsafl hf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í eignarhaldi, umsýslu, rekstri og útleigu fasteigna. Markmið félagsins er að eiga og reka fasteignir í langtíma- og/eða skammtímaútleigu. Félagið hefur yfir að ráða á annaðhundrað þúsund fermetrum af húsnæði, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, vörugeymslum o.s.frv. Viðskiptavinir félagsins eru fjölmargir, ríki og sveitarfélög, félög skráð í Kauphöll Íslands sem og ýmis önnur stór og smá fyrirtæki.