*

sunnudagur, 20. júní 2021
Fólk 30. maí 2021 17:34

Úr þægindarammanum í malbikið

Lilja Samúelsdóttir kveðst spennt fyrir að setjast hinum megin við borðið eftir fimmtán ára starf á fyrirtækjasviði Landsbankans.

Sigurður Gunnarsson
Lilja Samúelsdóttir, fjármálastjóri Malbikstövarinnar og Fagverks
Aðsend mynd

Lilja Samúelsdóttir hefur tekið við stöðu fjármálastjóra Malbikstöðvarinnar og Fagverks. Hún starfaði áður á fyrirtækjasviði Landsbankans í fimmtán ár.

„Fyrirtækið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og uppbyggingu Malbikstöðvarinnar hvergi nær lokið í þessu harða samkeppnisumhverfi við Reykjavíkurborg. Það var ótrúlega spennandi að fá tækifæri til að setjast hinum megin við borðið,“ segir Lilja. „Vilhjálmur Þór Matthíasson eigandi félaganna, er búinn að stýra þessu sjálfur hingað til en nú getur hann einbeitt sér í auknum mæli að daglegum rekstri og samskiptum við viðskiptavini.“

Lilja segir það hafa verið erfið ákvörðun að stíga út fyrir „þægindarammann“ sinn hjá Landsbankanum, sem sé afburða vinnustaður. Hún og Vilhjálmur höfðu velt þessari hugmynd fyrir sér í nokkra mánuði og töldu að styrk- og veikleikar þeirra vega vel upp á móti hvor öðrum í þessu starfi.

„Við erum bæði þannig úr garði gerð að við myndum ekki taka þessa ákvörðun ef við teldum hana ekki vera það besta í stöðunni fyrir okkur og fyrirtækið. Það er mikill háannatími núna svo að þegar ákvörðunin lá fyrir þá vorum við snögg að láta til skarar skríða. Það hefur verið virkilega gaman að kynnast þessum geira og ég hef strax lært mjög mikið.“

Lilja var í meistaranámi í fjármálum fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík á árunum 2010-2012, á sama tíma og hún var í fullu starfi hjá Landsbankanum. Spurð hvort það hafi ekki reynt á, viðurkennir hún að svo hafi verið.

„Ég ætla ekki að gera lítið úr álaginu á þessum tíma. Ég skrái mig í námið tveimur árum eftir hrun og því var enn nóg um að vera í bankanum. Maður spurði sjálfa sig að námi loknu „hvernig fór ég að þessu?“ Fjölskyldan studdi hins vegar vel við mig og Landsbankinn er líka frábær vinnustaður.“

Heimili Lilju og Vilhjálms er stórt og aldrei dauð stund þar sem þau búa ásamt fimm börnum sínum á aldrinum 17-22 ára frá fyrri samböndum.

Lilja og Vilhjálmur njóta þess að fara saman í fjallgöngur þegar tími gefst. Á síðustu tveimur árum hefur Lilja sótt þrjú fjallgöngunámskeið hjá Vilborgu Örnu Gissurardóttur og Tómasi Þór Verusyni hjá Tindar Travel, þar af eitt með Vilhjálmi. „Gaman að segja frá því að fyrsta námskeiðið endaði á toppi tilverunnar, á sjálfum Hvannadalshnjúk.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér