Úrvalstalan er komin yfir 1.000 stigin á nýjan leik eftir að hafa legið undir þeim síðan um mánaðamótin.

Úrvalsvísitalan, sem inniheldur sex veltumestu félögin á markaði, tók við af vísitölu með 15 félög. Nýja vísitalan tók gildi á á Nýársdag árið 2009. Upphafsgildi vísitölunnar var 1.000 stig. Hún byrjaði hins vegar ekki vel heldur tók að lækka fljótt og var komin niður í rúm 560 stig þremur mánuðum síðar. Eftir það tók hún að hækka á nýjan leik. Hún rauf ekki 1.000 stiga múrinn fyrr en í apríllok ári síðar.

Vísitalan hefur rokkað beggja vegna við upphafsgildið í þessi tvö og hálft ár. Í apríl á þessu ári náði vísitalan hæstu hæðum, tæpum 1.100 stigum. Hún hefur lækkað um 9% síðan þá.

Það sem hefur ýtt vísitölunni upp í dag er 2,19% hækkun á gengi bréfa Marel og 0,5% gengishækkun bréfa Össurar. Á móti hefur gengi bréfa Icelandair Group lækkað um 1% og er gengi bréfa félagsins nú á ný komið undir 7 krónur á hlut.