Úrvalsvísitalan hefur fallið um 76% frá því að hlutabréfamarkaðnum  var lokað fyrir þremur dögum. Opnað var aftur fyrir viðskipti í dag.

Úrvalsvísitalan er 716 stig við opnun markaðar. Sumarið 2007 var vísitalan um níuþúsund stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Veltan á hlutabréfamarkaði nemur 37 milljónum króna og 143 milljónir króna á skuldabréfamarkaði.

Grandi hefur hækkað um 100% í viðskiptum fyrir milljón, Föroya bank hefur hækkað um 7,5% og Marel um 1,4%.

Icelandair Group hefur lækkað um 4,5% og Nýherji um 2,3%.

Opið er fyrir viðskipti með: Alfesca hf. Atlantic Airways, Atlantic Petroleum P/F, Atorka Group hf., Bakkavör Group hf., Eik Banki, Foroya Bank, Eimskipafélagið hf. , Icelandair Group hf., Marel hf., Nýherja hf., Sláturfélag Suðurlands svf., Teymi hf., Vinnslustöðin hf. (sem stefnir af markaði) og  Össur hf, samkvæmt upplýsingum frá Dow Jones fréttaveitunni.

Auk þess er First North hliðarmarkaðurinn opinn, þar eru Century Aluminium, Hampiðjan og HB Grandi.

Fyrir opnun markaða þarsíðasta mánudag voru viðskipti  með sex fjármálafyrirtæki í Kauphöllinni stöðvuð. Þau töldu 82% af Úrvalsvísitölunni. Fyrirtækin eru Exista, Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Straumur-Burðarás og Spron.

Í síðustu viku tók Fjármálaeftirlitið við stjórnartaumum viðskiptabankanna þriggja.

_______________

Leiðrétting kl. 10.46: Upphaflega stóð að Alfesca hafi sótt um afskráningu. Það er ekki rétt. Beðist er velvirðingar á mistökunum.