Líflegt var á hlutabréfamarkaði í dag en veltan nam 13,8 mö.kr. en þar af voru stór viðskipti með bréf Kaldbaks og Samherja sem tengjast sameiningu Burðaráss og Kaldbaks. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,3% og var lokagildi hennar 3.651 stig. Þau félög sem leiddu hækkanirnar voru Kaldbakur (16,7%), Íslandsbanki (4,9%), Landsbanki (4%) og Össur (2,3%). Eins og fram kemur hér að ofan eru Burðarás og Kaldbakur að sameinast og lítur út fyrir að það hafi komið miklu róti á markaðinn.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að af félögum í Úrvalsvísitölunni hækkuðu sjö þeirra en aftur á móti lækkuðu fjögur. Af félögum í Úrvalsvísitölunni voru það bréf Og Vodafone sem lækkuðu mest eða um 2,7% en bréf Bakkavarar lækkuðu um 1,1% og Marels um tæpt 1%. Bréf Bakkavarar hafa þá lækkað síðustu þrjá daga en Greiningardeild gaf út nýtt verðmat á Bakkavör á miðvikudaginn síðasta þar sem verðmatsgengið var 21,3.

Það þóttu tíðindi seint á síðasta ári þegar Actavis varð fyrsta félagið til að verða 100 ma.kr. að markaðsvirði. Síðan þá hafa orðið miklar hækkanir á innlendum hlutabréfamarkaði. Er svo komið að ein fjögur félög eru orðin yfir 100 ma.kr. að markaðsvirði. KB banki er lang stærsta félagið á markaðnum en markaðsvirði þess er 268 ma.kr. Næst stærst er Actavis (148 ma.kr.) og þar á eftir koma Íslandsbanki (107 ma.kr.) og Landsbanki (105 ma.kr.).