Gengi hlutabréfa hefur hækkað nokkuð í talsverðri veltu í Kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,47% og liggur veltan í kringum einum milljarði króna. Þetta er annar dagurinn í röð sem hlutabréfamarkaðurinn hefur verið á uppleið. Í gær hækkaði Úrvalsvísitalan um 2,49% í um tveggja milljarða króna viðskiptum.

Það sem af er degi hefur gengi hlutabréfa færeyska bankans Bank Nordik hækkða mest eða um 3,47%. Á hæla bankans fylgir gengi bréfa Icelandair Group, sem hefur hækkað um 1,42%. Það stendur nú í 8,6 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra síðan í gengishruninu vorið 2009. Gengi bréfa Haga-samstæðunnar hefur sömuleiðis hækkað um 1,07%. Gengi annarra hlutabréfa hefur hækkað um tæpt prósent. Á móti hefur gengi bréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar lækkað um 0,51%.

Mikil viðskipti voru með hlutabréf Eimskips í gær. Nú eru mestu viðskiptin hins vegar með hlutabréf Icelandair Group eða fyrir 656 milljónir króna.

Í gær hækkaði gengi bréfa Eimskips mest eða um 4,5%. Í dag nemur hækkunin 0,61%. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 17,8% frá útboði í fyrra. Þá hefur gengi bréfa Vodafone hækkað jafn mikið. Félagið var skráð á markað rétt fyrir jól og hefur gengi bréfa félagsins hækkað um tæp 4,8% frá útboði með bréfin.

Úrvalsvísitalan fór í fyrsta sinn yfir 1.100 stiga múrinn innan viðskiptadagsins í gær en endaði í 1.098 stigum. Nú er vísitalan komin yfir 1.100 stigin á nýjan leik og hefur hún frá upphafi viðskiptadagsins sveiflast á milli 1.101 og 1.104 stiga. Vísitalan tók gildi á Nýársdag árið 2009 og var upphafsgildi hennar 1.000 stig.