Almennt útboð á hlutum í HB Granda hf. hefst klukkan fjögur í dag og lýkur klukkan fjögur á fimmtudaginn. Það er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. sem hefur umsjón með útboðinu. Í útboðinu hyggjast Arion banki, Vogun hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. selja 27–32% hlut í HB Granda.

Markmið seljenda með útboðinu er annars vegar að það geri HB Granda kleift að uppfylla skilyrði NASDAQ OMX Iceland hf. um dreifingu hlutabréfa sem tekin eru til viðskipta á Aðalmarkaði kauphallarinnar og hins vegar horfa seljendur til þess að selja eign sína á sem hagstæðustu verði.