Í virðismati IFS Greiningar á tryggingarfélaginu Sjóvá kemur fram að áhugavert geti verið að fjárfesta í hlutabréfum félagsins í frumútboðinu sem lýkur síðar í dag á neðri hluta verðbils í almenna hluta útboðsins. Virðismatsgengi bréfanna er 11,3 miðað við greiningu IFS en neðri mörk mörk útboðs gengis 10,7 krónur á hlut en efri mörkin 11,9 krónur á hlut. Þess má geta að í tilboðsbók B er 11,9 krónur á hlut lágmarksverð í útboðinu.

Í greiningunni segir að miðað við niðurstöðuna þá er hinn frægi en fáséði útboðsafsláttur ekki fyrirferðarmikill í útboðinu. Bent er á að hlutabréfin séu seld nokkurn veginn á sannvirði en jafnframt á nokkuð lægra verði en VÍS og TM hafa verið að ganga á lengst af miðað við helstu kennitölur félaganna. Þeir sem eru trúaðir á kjölfestu þeirrar verðlagningar ættu að geta séð frumútboðsafslátt í þeim samanburði.

Í greiningunni er bent á þrjá neikvæða þætti við kaup á bréfunum. Í fyrsta lagi er að mestu Íslandsáhætta í hlutabréfum félgsins, þá er óvissa um kjölfestufjárfesta fram á við og óljóst hverjir munu draga vagninn á næstu misserum og árum. Hætt geti verið við því að stór hluti útboðs fari til fagfjárfesta sem ekki skipta sér af stjórnun félaga sem þeir eiga í. Það geti minnkað aðhald að stjórnendum og skaðað arðsemi hlutafjár.

Áhugavert er að IFS veltir upp þeirri spurningu um hvort samsett hlutfall tryggingarfélaga hér á landi geti verið undir 100% til lengri tíma. nú um stundir eru öll félögin að skila samsettu hlutfalli þar undir en á árum áður var hlutfalli oftar en ekki langt yfir 100%. Ef hlutfallið helst langt undir 100% verður innganga nýrra aðila á markaðinn sennilegri með tilheyrandi aukinni samkeppni. Þá segir að færa megi rök fyrir svo lágt hlutfall undanfarin ár megi rekja til óvenjumikillar deyfðar í efnahagslífinu í kjölfar efnahagshrunsins.