Útboðsgjald, sem er það verð sem innflutningsfyrirtæki verði að greiða fyrir tollfrjálsan innflutning á búvörum frá ESB, hækkaði mikið frá síðasta útboði á tollkvóta. Frá þessu er greint í frétt Félags atvinnurekenda , en niðurstöðurnar voru kynntar síðastliðin fimmtudag. Dæmi er um allt að 45% hækkun útboðsgjaldsins frá fyrri hluta ársins.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það hafi gengið eftir sem félagið varaði við, að fjölgun útboða úr einu í tvö á ári myndi leiða til þess að útboðsgjaldið myndi hækka og þá sömuleiðis útsöluverð á innfluttum búvörum. „Atvinnuvegaráðuneytið hefur nú ákveðið að falla frá því að bjóða upp kvóta samkvæmt WTO-samningnum tvisvar á ári og mun gera það árlega, eins og áður var. Að okkar mati liggur algjörlega í augum uppi að fara sömu leið varðandi ESB-kvótana, því að þetta nýja fyrirkomulag hefur gefist illa,“ segir Ólafur.

Nautakjötskvótinn hækkar um 12% og skinkukvótinn um 45%

Útboðsgjald fyrir innflutningskvóta vegna nautakjöts hækkar um tæplega 12% milli árshelminga. Svínakjötskvótinn hækkar um rúmlega 26%, kvóti vegna innflutnings á þurrkuðu og reyktu kjöti, t.d. Parma- og Serrano-skinku, um tæplega 45% og kvóti fyrir pylsur um 30%, enda er sívaxandi eftirspurn eftir slíkum vörum. Hins vegar lækkar útboðsgjald vegna ostakvóta um 16,5%. Að mati Ólafs á það sér skýringu í því að í síðasta útboði hækkaði það um nærri 87% frá árinu 2016, sem var væntanlega skot yfir markið. Hann bendir jafnframt á að útboðsgjald fyrir alifuglakvóta hefur haldist meira og minna óbreytt frá árinu 2014.

Samkvæmt niðurstöðum útboðanna tveggja á ESB-tollkvóta vegna fyrri og seinni hluta ársins 2017 munu ríflega 407 milljónir króna renna úr vösum almennings og til ríkisins vegna útboðsgjaldsins. Útboðsgjaldið var dæmt ólögmætt og andstætt stjórnarskrá í janúar 2016. Að mati FA er fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta áfram ólögmætt, þrátt fyrir breytingar á búvörulögum, og hafa nokkur innflutningsfyrirtæki stefnt ríkinu á nýjan leik. „Það verður að finna nýja lausn á úthlutun tollkvóta. Það er fráleitt fyrirkomulag að ríkið taki hundruð milljóna í gjöld af innflutningsfyrirtækjum og sé svo jafnóðum dæmt til að endurgreiða þau,“ segir Ólafur.