Útflutningsverðmæti norsk-íslenskrar síldar og makríls í sumar er um 45 milljarðar króna. Gangi veiðar á loðnu á næstu mánuðum samkvæmt væntingum fer verðmæti þessara þriggja tegunda á nokkrum mánuðum í 75 milljarða króna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Aðrar tegundir uppsjávarfisks færa útflutningsverðmætið vel yfir 80 milljarða króna.

Heildarútflutningstekjur sjávarútvegs í fyrra voru 220 milljarðar króna. Viðmælendur Fréttablaðsins innan útgerðarinnar segja að útflutningsverðmæti uppsjávarfisks hafi verið um þriðjungur af þeirri tölu eða 66 milljarðar. Hlutdeild uppsjávarfisks í útflutningsverðmæti sjávarafurða , sem er áætlað 225 milljarðar í ár, hefur því aukist umtalsvert.

Nú liggur fyrir að af rúmlega 150 þúsund tonna veiði af makríl í sumar fóru rúmlega 90 prósent til manneldisvinnslu. Á vertíðinni 2010 fóru 40 prósent aflans í bræðslu og árið 2009 80 prósent. Útflutningsverðmæti makríls er áætlað um 30 milljarðar króna á þessu ári, helmingi hærra en fyrir tveimur árum.

Flotinn snýr sér nú af krafti að loðnuveiðum þar sem síld- og makrílkvótar eru veiddir. Ef væntingar ganga eftir er fyrir höndum stærsta loðnuvertíð í sex ár eða veiði upp á hálfa milljón tonna. Varlega áætlað og miðað við hagstæða samsetningu í bræðslu aflans, frystingu og hrognavinnslu má reikna með að heildarverðmæti úr sjó verði 25 til 30 milljarðar króna. Talið er að norsk-íslenska síldin hafi skilað 16 milljörðum í ár í útflutningsverðmæti. Kolmunni var ekki veiddur að ráði í ár en íslenskum skipum verður heimilt að veiða 63 þúsund tonn á árinu 2012. Það er að vonum tveir til þrír milljarðar.

Samkvæmt Fréttablaðinu er beðið eftir ákvörðun um kvóta í íslenska síldarstofninum en þar var kvótinn 45 þúsund tonn á síðustu vertíð og útflutningsverðmætið metið á um fjóra milljarða.