„Við urðum, eins og aðrir, varir við fréttaflutning af þessu og vorum að reyna að hlera málin undir lok síðasta árs. Við bjuggumst við því að frumvarp yrði lagt fram á haustþingi,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að útgerðarmenn kalli eftir stöðugleika um fiskveiðistjórnunarkerfið, en Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur ekki enn lagt fram frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið þótt það hafi verið fyrirhugað í nokkurn tíma.

Kolbeinn bendir á að sjávarútvegsfyrirtæki verði að búa við fyrirsjáanleika. Hann segir að sú staða að kosið verði um þetta á fjögurra ára fresti og reglum um gjaldtöku sé breytt á ársfresti sé ekki góð fyrir grein sem krefjist eins mikillar fjárfestingar og sjávarútvegurinn geri.

Sigurður Ingi sagði á þingi að býsna vel hefði tekist að ræða við ólíka hagsmunaaðila um þrjá meginþætti frumvarpsins sem felist í því að þjóðin sé eigandi auðlindarinnar, að útgerðinni sé tryggður fyrirsjáanleiki og að veiðigjöld yrðu hluti af þeirri þríliðu. „Og ein af ástæðunum fyrir því að málið er ekki komið hér inn ennþá er að við erum að leita eftir víðtækari sátt um að leysa þessi þrjú vandamál.“