Forstjórar tveggja stórra sjávarútvegsfyrirtækja, HB Granda og Þorbjörns, segja að yfirvöld haldi uppi of sterku gengi íslensku krónunnar. Þannig sé afkoma fyrirtækjanna lakari en ella. Þetta segja þeir í samtali við Bloomberg fréttastofuna. Bloomberg bendir á að erlendis kosti evra um 239 krónur en hún kosti 155 krónur hér heima.

Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar, bendir á að gengi krónunnar sé falskt eftir að gjaldeyrishöft voru tekin upp árið 2008. „Við erum að styðjast við gengi sem er allt of hátt og óraunhæft, en þetta dregur úr tekjum okkar í krónum,” segir Eiríkur.

Í sama streng tekur Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda.  „Ég hef miklar efasemdir um núverandi gengi krónunnar,“ segir Vilhjálmur við Bloomberg. „Seðlabankinn hlýtur að hafa efasemdir líka, fyrst hann er reiðubúinn til að greiða hærra verð fyrir evruna á uppboði en það verð sem hún er skráð á opinberlega,“segir Vilhjálmur.