Sjávarútvegsfyrirtæki landsins gætu þurft að færa niður virði aflaheimilda úr bókum sínum um tugi milljarða króna vegna breytinga á lögum um veiðigjöld sem samþykkt voru á síðasta þingi. Eignfært virði aflaheimilda allra útgerða landsins nam 200 milljörðum króna í lok árs 2010 samkvæmt umsögn endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte frá í vor.

Niðurstaða virðisrýrnunarprófs á aflaheimildum HB Granda í lok júní sýndi að bókfært virði aflaheimilda félagsins lækkaði um 3,5 milljarða. HB Grandi vísaði í ný lög Alþingis um veiðigjöld sem fela í sér rúmlega fjórföldun á veiðigjöldum fyrirtækisins frá síðasta fiskveiðiári. Fleiri sjávarútvegsfyrirtæki eru að skoða niðurfærslu á virði aflaheimilda, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

„Við höfum ekki gert það. En erum að fara í gegnum þá vinnu,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar um hvort búið sé að færa niður virði aflaheimilda. Hann segir ekki hægt að slá á neinar tölur að svo stöddu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.