Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði námu rúmum sex milljörðum króna á síðasta ári, sem er réttum milljarði meira en árið áður. Foreldrar sem fengu greiðslur úr sjóðnum voru hins vegar um eitt hundrað færri á síðasta ári borið saman við árið 2003. Hækkun orlofsupphæðar milli ára var að meðaltali um tíu þúsund krónur, fór úr rúmum 170 þúsundum í rúm 180 þúsund.

Í frétt á heimasíðu Tryggingastofnunar kemur fram að rúmlega 7700 foreldrar fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á árinu 2004 sem er nokkur fækkun frá árinu 2003 en þá voru foreldrarnir liðlega 7800. Feðrum sem tóku samfellt orlof, þrjá mánuði, fjölgaði nokkuð, úr 507 árið 2003 í 598 árið 2004.

Um síðustu áramót varð sú breyting á lögum um Fæðingarorlofssjóð að mánaðarleg greiðsla til foreldris í fullu orlofi getur hæst orðið 480 þúsund eða 80% af 600 þúsund króna meðallaunum. Á milli áranna 2003 og 2004 fjölgaði foreldrum með hærri tekjur en 600 þúsund úr 49 í 66. Fyrra árið voru 46 karlar og 3 konur með 600 þúsund króna meðallaun eða hærri, en í fyrra voru konurnar í þessum tekjuhópi fjórfalt fleiri en árið áður eða 12 talsins, karlarnir 54 segir í frétt Tryggingastofnunar.

Gögn frá Fæðingarorlofssjóði sýna mikinn launamun milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Aðeins tveir af 66 foreldrum með 600 þúsund króna meðallaun á mánuði eða hærri í fyrra áttu heima utan höfuðborgarsvæðisins og áberandi er að meðalgreiðslur eru umtalsvert lægri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Talsverður munur er einnig á greiðslum milli kynja. Meðalgreiðslur til karla í Reykjavík var um 250 þúsund krónur en 164 þúsund til reykvískra kvenna. Karlar á landsbyggðinni fá um 230 þúsund en konur um 130 þúsund.

Í fréttinni er haft eftir Hallveigu Thordarson, deildarstjóra Fæðingarorlofssjóðs, að það liggi ekki fyrir hver staða sjóðsins var um síðustu áramót. Í byrjun ársins 2004 var hún hins vegar 1,176 milljarðar.

"Í meðfylgjandi skjölum koma fram ýmsar upplýsingar um fæðingarorlof/fæðingarstyrk foreldra barna sem fædd eru á árunum 2003 og 2004. Þær eru teknar út frá umsóknum foreldra og segja ekkert um það hvenær foreldrar eru í orlofi. Vel er hugsandi að foreldri barns sem er fætt í lok árs 2003 fari ekki í orlof fyrr en í byrjun árs 2005 þar sem réttur til greiðslna fellur ekki niður fyrr en við 18 mánaða aldur barns. Jafnframt er hugsanlegt að einhverjir foreldrar barna sem fædd eru árið 2004 séu ekki búnir að sækja um. Einnig er rétt að benda á að foreldrar sem eiga umsóknir í bið eru ekki með í þessum tölum," segir í frétt Tryggingastofnunar.