Útgjöld Landspítalans jukust um 2,5 milljarða króna milli áranna 2011 og 2012, samkvæmt ársreikningi spítalans, og námu 40,7 milljörðum króna. Launaliðir hækkuðu um 1.750 milljónir króna, vörunotkun um 790 milljónir króna, en minni breytingar voru á öðrum útgjaldaliðum.

Tekjur, aðrar en framlag ríkisins, jukust um 590 milljónir króna og námu 4,2 milljörðum króna, en framlag ríkisins hækkaði um tæpa tvo milljarða og nam 36,5 milljörðum króna.

Að teknu tilliti til framlags ríkisins var afgangur af rekstri spítalans upp á 16,4 milljónir króna, en árið 2011 var afgangurinn 4,8 milljónir.

Samkvæmt ársreikningnum var eigið fé spítalans neikvætt um 2,8 milljarða króna um síðustu áramót. Eignir spítalans, sem að stærstum hluta eru vörubirgðir og skammtímakröfur, námu 2,3 milljörðum og skuldir námu 5,1 milljarði. Þar af voru skuldir við ríkissjóð 2,4 milljarðar og viðskiptaskuldir 2,7 milljarðar.