Útgönguskattur kemur vart til greina sem tæki til að losa fjármagnshöftin fyrr en aflandskrónuvandinn hefur verið leystur og útgreiðslum úr slitabúum lokið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu dr. Ásgeirs Jónssonar og dr. Hersis Sigurgeirssonar, Drög að uppgjöri, sem fjallar um þá kosti sem eru í stöðunni til að ljúka slitameðferð föllnu bankanna. Skýrsluna vinna þeir að beiðni slitastjórnar Glitnis. Í henni er farið yfir þann færsluvanda sem Ísland glímir við vegna fjármagnshafta og þær leið­ir sem koma til greina til að leysa hann.

Fimm skilyrði

Þeir nefna fimm nauðsynleg skilyrði til að tryggja almannahagsmuni við lausn færsluvandans. Þau eru að útgreiðslur á kröfum úr bú­unum verða að rúmast innan fjármagnsjafnaðar, að ráðstöfun innlendra eigna búanna skapi ekki hættu á greiðslujafnaðarvanda, að útgreiðslurnar eigi sér stað til hlið­ ar við opinberan gjaldeyrismarkað, að koma verði í veg fyrir að eftirlegukindur (e. hold-outs) séu til staðar eftir útgreiðslurnar og að ferlið verði án lagalegrar áhættu ríkissjóðs þannig að kröfurnar breytist ekki í kröfur á íslensku þjóðina. Annars vegar er hægt að uppfylla skilyrðin með nauðasamningi slitabúanna og hins vegar með skattheimtu. Nauðasamningur uppfyllir sjálfkrafa síðustu tvö skilyrðin á meðan skattlagning uppfyllir þrjú fyrstu en skilur síð­ustu tvö eftir í óvissu. Til þess að skattlagning gæti gengið upp að mati Ásgeirs og Hersis þarf hún að vera miðuð að lausn færsluvandans en engum öðrum markmiðum, líkt og við tekjuöflun ríkissjóðs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .