Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag að vinstri stjórn þyrfti jarðtengingu og að sú jarðtenging væri Framsóknarflokkurinn.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, útilokar ekki að í samstarfi VG og Samfylkingar eftir kosningar verði einnig Framsóknarflokkurinn.

Steingrímur og Siv ræddu á Alþingi í dag mögulegt stjórnarmynstur eftir kosningar og var ekki hægt að skilja samræður þeirra öðruvísi en svo að þau væru að biðla til hvors annars í þeim efnum.

Siv sagði að Samfylking og VG væru eins og ástfangnir unglingar á vorin en sagði einnig að flokkarnir þyrftu jarðtengingu; jarðtengja þyrfti vinstri sveifluna. Það væri hægt með Framsóknarflokknum. Hann talaði fyrir miðjustjórn.

Steingrímur sagði það rétt að á landsfundum VG og Samfylkingar hefði sá andi svifið yfir vötnum að stjórnarsamstarfið gengi vel „og menn hafa fullan hug á því að halda því áfram. Menn vilja að hér verði áfram við völd félagshyggju - og vinstri stjórn og menn vilja að Sjálfstæðisflokkurinn komist ekki aftur til valda," sagði hann.

„Framsóknarflokkurinn gerir það að sjálfsögðu upp við sig hvar hann vill vera inni í þessari mynd. Ég hef tekið það skýrt fram að ég útloka ekkert í þeim efnum," sagði Steingrímur enn fremur.

Tefla fram sínum stefnuskrám

Siv spurði Steingrím einnig að því hvort VG og Samfylking þyrftu ekki að greina þjóðinni frá því hvernig stjórnarsáttmáli þeirra myndi líta út, yrðu þessir tveir flokkar einir áfram í stjórn eftir kosningar. Til að mynda hvort farið yrði í almennar skattahækkanir og hvernig ESB-málið yrði afgreitt.

Steingrímur svaraði því m.a. til að flokkarnir myndu tefla fram sínum stefnuskrám. Hann sagði enn fremur að það væri engin önnur leið fær en blönduð leið, þ.e. skattahækkun og niðurskurður, í baráttunni við ríkisfjármálin.

Spurningunni um ESB svaraði hann ekki.