„Síðan ég kom heim aftur og tók við KR hefur hugurinn ekki leitað út," svarar Rúnar þegar hann er spurður hvort hann stefni á að starfa á ný sem aðalþjálfari hjá erlendu liði. „Mér þótti mikilvægast að komast á ný á fullt í þjálfun til að sanna fyrir sjálfum mér og öðrum að ég væri ennþá góður þjálfari. Það sem gerðist erlendis og þá sérstaklega í Belgíu, tel ég að hafi ekki verið eitthvað sem ég átti skilið. Það er auðvitað ákveðin höfnun sem fylgir því að vera sagt upp störfum og í mínu tilfelli var höfnunin eftir í brottreksturinn í Belgíu mikil, enda var undarlega staðið að honum. Ég lærði helling af því að þjálfa erlendis og hef þroskast mikið sem þjálfari á þeim tæpa áratug síðan ég tók fyrst við KR. Þegar ég tók á ný við KR vildi ég þó ekki breyta of miklu í minni hugmyndafræði, ég vildi halda áfram að vera ég sjálfur og vera trúr mínum þjálfunaraðferðum. Fyrir mig var því mjög gefandi að vinna Íslandsmeistaratitilinn í sumar."

Eftir að síðasta tímabili lauk fóru sögusagnir þess efnis að Rúnar gæti tekið við þjálfun erlends liðs og var hann mest orðaður við félög í Noregi. Að sögn Rúnars var þessi orðrómur þó úr lausu lofti gripinn.

„Það hefur ekkert erlent lið haft samband við mig en ég og umboðsmaður minn höfum heldur ekkert verið að reyna að koma mér að erlendis. En ef eitthvað kæmi upp eftir næsta tímabil og aðstæður eru réttar fyrir mig og mína fjölskyldu, þá er aldrei að vita hvað gerist. En mér líður vel hjá KR og við fjölskyldan erum mjög ánægð á Íslandi."

Samheldni leikmanna lykillinn á bak við Íslandsmeistaratitilinn

Á síðastliðnu tímabili stýrði Rúnar KR til sigurs í Pepsi Max deild karla með fáheyrðum yfirburðum, en liðið endaði fjórtán stigum fyrir ofan Breiðablik sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar. Spurður um lykilinn á bak við þennan árangur, segir Rúnar að samheldni innan leikmannahópsins hafi leikið lykilhlutverk í árangri sumarsins.

„Frá því að ég tók aftur við fyrir tímabilið í fyrra hafði liðið verið í stöðugri mótun og undir lok þess tímabils fannst mér vera kominn fínn bragur á leik liðsins, sem við tókum svo með okkur inn í árið 2019. Fyrir tímabilið styrktum við hópinn og samkeppnin varð því meiri en tímabilið áður. Við áttum gott undirbúningstímabil um veturinn þar sem við dreifðum álaginu vel niður á okkar leikmenn. Fyrir tímabilið settum við okkur skýr markmið og eitt af því var að við vildum vinna hvern einasta leik sem við fórum í. Því stilltum við undirbúningnum fyrir leiki á undirbúningstímabilinu upp á sama hátt og við gerum fyrir deildarleiki. Svo fórum við í frábæra æfingaferð erlendis og þar stillti hópurinn enn betur saman strengi. Undirbúningstímabilið gekk mjög vel og það má segja að það hafi sett tóninn fyrir sumarið."

Rúnar segir að rétt eins og vanalega í Vesturbænum sé stefnan sett á að berjast um alla þá titla sem í boði eru á komandi tímabili.

„Markmið okkar eru þau sömu og alltaf; að berjast um að vinna bæði deild og bikar. Við erum ríkjandi meistarar og hópurinn er nánast sá sami, þannig að eðlilega ætlum við okkur stóra hluti. Það eru spennandi ungir strákar að koma upp og við það breikkar hópurinn. Ég er mjög ánægður með hópinn og hef óbilandi trú á þessum strákum."

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.