Að sögn Axels Gíslasonar, framvæmdastjóra Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga hefur ekki verið ákveðið hvaða fulltrúar félagsins setjast í stjórn Icelandair Group. Langflug ehf. er að mestu í eigu Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga en það félag hefur keypt 32% hlut í Icelandair Group.

Axel var spurður um hvaða áform um rekstur Icelandair nýir eigendur hefðu. ?Þetta á allt eftir að koma í ljós þegar nýir eigendur koma að þessu, bæði þeir sem núna hafa keypt og einnig þeir sem væntanlega eiga eftir að taka þátt í útboðinu, sem er framundan, en stór hluti er óseldur ennþá. Það er því ekki tímabært að fjalla um það á þessu stigi. Ég geri ráð fyrir að það verði þarna samhent stjórn sem taki á því hefðbundna verkefni svona fyrirtækis að stýra því vel með langtímahagsmuni og uppbyggingu í huga.?

Að sögn Axels hefur Eignarhaldsfélagið aðallega fjárfest í fjármálafyrirtækjum. Stærsta eign þess er hlutur í Exista en Eignarhaldsfélögin Samvinnutryggingar og Andvaka eigi um 7,3% í Exista og að viðbættum hlut Samvinnutrygginga í Hesteyri er eign þeirra í Exista rúmlega 9%. Sömuleiðis á félagið hlut í öllum viðskiptabönkunum, mismunandi stóra þó. Félagið á einnig í ýmsum nýsköpunarverkefnum og hátæknifyrirtækjum. Sem dæmi um það má nefna deCODE Genetics, Latabæ, Flögu, Mentis Cura, Intelscan og Orf Líftækni.

Þegar Axel var spurður um það hvort félagið hyggðist eiga Exista hlutinn áfram sagði hann of snemmt um slíkt að segja. ?Það er ekki útilokað að það verði einhverntímann selt en það hefur ekki verið ákveðið neitt um það."

Með aðkomu Eignarhaldsfélagsins að Icelandair má segja að breyting hafi orðið á fjárfestingastefnu félagsins og tekur Axel undir það. ?Þetta breytir alveg eðli fjárfestinga okkar vegna þess að nú erum við með skráð verðbréf í stað þess að vera með óskráð bréf í tryggingafélögunum. Við erum að vinna í því ljósi núna."

Aðspurður sagði Axel að hugsanlega þurfti eitthvað að breyta samþykktum Eignarhaldsfélagsins í ljósi breyttra áhersla. ?Það er verið að vinna í því. Þetta er nýlega skeð og í þessu fyrirtæki eins og öðrum endurmeta menn stöðu sína þegar breytingar verða, á félagsins háttum eða umhverfinu. Það á alveg eins við um okkur og aðra."

Samvinnutryggingar og Andvaka voru gagnkvæm tryggingafélög. Eigendur slíkra félaga eru tryggingartakar á hverjum tíma. Réttindi af þessu tagi erfast ekki og falla niður eftir ákveðnum reglum þegar tryggingatöku hjá viðkomandi félagi lýkur. Réttindi fyrrverandi tryggingartaka renna til Samvinnutryggingasjóðsins tveimur árum eftir andlát en hann er eins konar sjálfeignarstofnun innan félagsins og eru eignir hans hluti af eigin fé félagsins.