Í júlí síðastliðnum námu almenn útlán Íbúðalánasjóðs rúmlega 2,1 milljarði króna. Er það um fimmtungi hærri fjárhæð en þau voru í júlí í fyrra. Þessi aukning er í takti við þróunina að undanförnu enda hafa útlán sjóðsins til íbúðakaupa aukist á milli ára allt frá júlí á síðasta ári, þó að febrúar síðastliðnum undanskildum þegar þau stóðu í stað á milli ára. Ef tekið er mið af fyrstu sjö mánuðum ársins hafa útlán ÍLS til íbúðakaupa aukist um rúm 40% frá sama tíma í fyrra, eða úr 9,4 mö.kr. í 13,5 ma.kr. Í Morgunkornum Íslandsbanka segir að þessi þróun sé í samræmi við tölur Þjóðskrár Íslands sem benda til þess að umsvifin á íbúðamarkaði hafi verið að aukast umtalsvert undanfarið. Má hér nefna að kaupsamningar á fyrstu sjö mánuðum þessa árs eru rúmlega 60% fleiri en þeir voru á sama tímabili í fyrra. Til viðbótar við almenn útlán veitti sjóðurinn önnur útlán upp á 100 m.kr. sem er mun lægri fjárhæð en þau voru á sama tíma í fyrra, en þá voru önnur útlán 1,0 ma.kr. Er þetta einnig í takti við þróun þeirra undanfarið. Það sem af er ári nemur fjárhæð þeirra einungis 1,4 ma.kr. og hafa þau sjaldan verið lægri, en til samanburðar má nefna að á sama tímabili í fyrra voru þau tæpir 5,3 ma.kr.