Ný útlán Íbúðalánasjóðs námu tæpum tveimur milljörðum króna í apríl sl. „Er það aukning upp á 150% frá því í apríl í fyrra þegar þau voru einungis 800 milljónir kr. Þessi aukning er í takti við þróunina að undanförnu enda hafa útlán sjóðsins til íbúðakaupa aukist á milli ára allt frá júlí á síðasta ári, þó að febrúar undanskildum þegar þau stóðu í stað á milli ára," segir í fréttabréfi Greiningar Íslandsbanka.

Meðallán um tíu milljónir

Í fréttabréfi Greiningar segir að ef tekið er mið af fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafi útlán ÍLS til íbúðakaupa aukist um helming frá sama tíma í fyrra, eða úr 4,7 milljörðum kr. í 7,1 milljarð.kr. Meðalútlán almennra lána voru um 9,9 milljónir kr. í apríl síðastliðnum, sem er 18% hærri fjárhæð að nafnverði en þau voru í apríl fyrir ári þegar þau voru 8,4 m.kr.