"Þrátt fyrir að mörg jákvæð teikn séu á lofti, útlán bankanna hafi minnkað, húsnæðismarkaðurinn hefur kólnað og allt útlit sé fyrir að verðbólgutoppurinn verði lægri en spár Seðlabankans höfðu áður gert ráð fyrir, teljum við að enn sé talsverð óvissa ríkjandi og því enn óhjákvæmileg þörf á aðhaldi frá Seðlabankanum og frekari hækkun stýrivaxta" Sagði Davíð Oddson Seðlabankastjóri á blaðamannafundi nú í morgun þar sem rökstuðningur fyrir 50 punkta hækkun stýrivaxta upp í 13,5% var kynntur.

Seðlabankinn kynnti í dag þá ákvörðun bankastjórnarinnar að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig og er um að ræða auka-vaxtaákvörðunardag til að bregðast við þenslu og verðbólguþrýstingi. Síðast hækkkaði bankinn vexti um 0,75 prósentustig í byrjun júlí og næsti formlegi vaxtaákvörðunardagur er þann 14. september næstkomandi. Hækkunin í dag er í takt við spár greiningaraðila. Krónan hefur styrkst um 0,76% frá því í morgun þegar ákvörðun Seðlabankans var kynnt.

Davíð Oddson sagði á blaðamannafundinum að þrátt fyrir mörg jákvæð teikn, þá væri enn ekki tímabært að segja til um hvort að stýrivaxtahækkunarferli Seðlabankans væri lokið og að engar yfirlýsingar þess efnis verði gefnar út fyrr en að ótvíræðar vísbendingar um minnkandi verðbólgu og þenslu lægju fyrir.

Davíð sagði að líklega yrði verðbólga minni á þriðja ársfjórðungi en fyrri spár bankans höfðu gert fyrir en áður hafði bankinn spáð að tólf mánaða verðbólga yrði 11% í lok árs. Að sögn Davíðs hafa tvær síðustu mælingar Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs leytt í ljós að verðbólga sé nú minni en áður var búist við.