Daimler Benz, sem framleiðir Mercedes Benz bifreiðar, fagnar 125 ára afmæli sínu í ár. Flest bendir til að félagið hafi ástæðu til að fagna fleiri áföngum.

Félagið sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem Dr. Joachim Schmidt framkvæmdastjóri sölusviðs félagsins segir að allt stefni í að yfir 1,3 milljónir Mercedes Benz bifreiða verði seldar í ár.  Það væri mesta sala í 125 ára sögu félagsins.

Þrefalt sölumet hefur verið þegar verið slegið. Aldrei hafa selst fleiri bílar í einum mánuði eins og í júní. Einnig hafa aldrei selst fleiri bílar á einum ársfjórðungi (2. ársfj.) og á hálfu ári.

Söluaukningin skýrist af mikilli aukningu í BRIC löndunum svokölluðu á fyrri helmingi ársins, Brasilíu (34,7%), Rússlandi (70,6%), Indlandi (40,3%) og Kína (52,3%).  Söluaukningin nam 13% í Bandaríkjunum.