Íslenski fasteignamarkaðurinn virðist eiga það sammerkt með bandarískum, breskum og dönskum mörkuðum að útlit er fyrir að fasteignaverð fari lækkandi þó menn spái mjúkri lendingu eða meira jafnvægi en ekki hruni á þessum mörkuðum, segir greiningardeild Glitnis.

"Í kjölfar betra aðgengis almennings að lánsfé á hagstæðum kjörum hefur fasteignaverð hækkað víða um heim undarnfarin misseri í vestrænum löndum. Fasteignaverð hefur hækkað talsvert í mörgum löndum Evrópu og einnig í Bandaríkjunum," segir greiningardeildin.

Hún segir að í kjölfarið hafi verðbólgan aukist og seðlabankar landanna hafa hækkað vexti nú síðustu misseri til að reyna að hafa hemil á verðbólgunni.

?Hærra vaxtastig og aukið aðhald í útlánum banka hefur hægt á hækkun á fasteignamörkuðum síðustu vikurnar. Þessa lýsingu kannast íslendingar við því sama hefur verið uppi á teningnum hérlendis," segir greiningardeildin.