Hagfræðingar telja um þessar mundir að Seðlabanki Evrópu muni koma til með að halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem fram mun fara seinna í vikunni. En stýrivextir Evrubankans eru 2%. Eins og málum er háttað er mjög lítill verðbólguþrýstingur til staðar, m.a. vegna sterkrar evru auk þess sem vöxtur einkaneysla hefur verið tregur. Í kjölfarið er talið að Seðlabankinn muni lækka hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár sökum þess að hátt gengi evrunnar kemur illa við útflutningsgeirann ? sem hefur verið aðaldrifkraftur hagvaxtar að undanförnu.

"Ljóst er að óbreyttir vextir á Evrusvæðinu eru jákvæðar fréttir fyrir íslenskan almenning og fyrirtæki sem skuldar töluvert í evrulánum og munu þannig heldur styðja við gengi krónunnar. Í lok október síðastliðnum skulduðu íslensk heimili og fyrirtæki samtals 454 ma. kr. í erlendum gjaldmiðli.Leiða má líkum að því að tæplega helmingur þeirrar fjárhæðar sé í evrum talið þar sem hlutfall hennar í gengisvísitölu krónunnar er u.þ.b. 42%," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þars egir ennfremur að ef Seðlabanki Evrópu hefði hækkað stýrivexti um 25 punkta þá hefði u.þ.b. hálfur milljarður króna flætt úr landi á ári vegna hærri vaxtagreiðslna. En ef Seðlabanki Evrópu hefði hækkað vexti um 75 punkta þá hefði gjaldeyrisútflæðið numið um einum og hálfum milljarði króna. "Stýrivextir á erlendri grundu eru heilt yfir í sögulegu lágmarki um þessar mundir og í því ljósi má vænta hærri vaxta á næstu misserum. Erlendar stýrivaxtahækkanir skipta bæði máli fyrir skammtíma- og langtímahreyfingu krónunnar. Erlendar lántökur styrkja gengi krónunnar til skammst tíma þar sem aukið fjármagn flæðir inn í landið. Hins vegar er ljóst að slíkar lántökur setja veikingarþrýsting á krónuna þegar til lengri tíma í formi aukins útflæðis afborgana og vaxtagreiðslna. Ljóst er að gengi krónunnar er að verða sífellt næmara fyrir erlendum stýrivaxtahækkunum og ákvarðanir erlendra seðlabanka skipta meira máli fyrir íslenskt efnahagslíf," segir í Hálffimm fréttum.