Gert er ráð fyrir því að tekjur í farþegakílómetrum (e. revenue passenger kilometers ) muni dragast saman í Evrópu um 55% á þessu ári og um 36% í Norður-Ameríku. Er gert ráð fyrir að þetta muni leiða til 89 milljarða dollara tekjutaps hjá flugfélögum í Evrópu og 64 milljarða tekjutaps í Norður-Ameríku. Þetta kemur fram í greiningu sem IATA , alþjóðasamtök flugfélaga, sendi frá sér á þriðjudaginn.

Er þetta dekkri mynd en dregin var upp í sambærilegri greiningu þann 24. mars síðastliðinn, þar sem gert var ráð fyrir 46% samdrætti í Evrópu og 27% samdrætti í Norður-Ameríku og að tekjusamdráttur yrði 76 og 50 milljarðar dollara.

Í þeirri sviðsmynd sem IATA byggir spá sína á er gert ráð fyrir því flugsamgöngur verði nánast í lamasessi samhliða aðgerðum stjórnvalda út annan ársfjórðung þessa árs. Er það sama sviðsmynd og stuðst var við í fyrri spá IATA . Í uppfærðu spánni er hins vegar gert ráð fyrir því að alþjóðlegum ferðatakmörkunum verði aflétt hægar og að markaðurinn muni einungis fara hálfa leið í að ná fyrri styrk á fjórða ársfjórðungi.

Erfitt er að segja til um hvernig verð á flugfargjöldum muni þróast þegar flugferðir milli landa hefjast á nýjan leik að einhverju marki þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. Írska lágfargjaldaflugfélagið Ryanair gerir sem dæmi ráð fyrir því að miðjusæti véla þeirra muni verða autt þegar flug fer aftur af stað sem mun leiða til þess að hefðbundin vél félagsins mun einungis geta flutt 126 farþega í stað 189.

Þá liggur einnig fyrir að töluverður fjöldi flugfélaga muni draga úr framboði sínu en sem dæmi hefur Lufthansa samsteypan hætt rekstri lágfargjaldaflugfélagsins Germanwings auk þess að taka alls 29 flugvélar varanlega úr rekstri. Gera má ráð fyrir að slíkar aðgerðir muni ýta verði á flugfargjöldum verulega upp. Aftur á móti lét hinn skrautlegi Michael O‘Leary , forstjóri Ryanair , hafa það eftir sér á fimmtudag að hann byggist við verðstríði á flugmarkaði þegar ástandið kæmist aftur í samt horf sem hann býst við að verði fyrr en flestir búast við

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér