Wen Jiabo, forsætisráðherra Kína, rétti fram sáttahönd er hann ávarpaði japanskan þingheim í gær og sagði að þjóðirnar tvær ættu að reyna komast yfir sárar minningar um stríðsátök fortíðar og stefna að því byggja upp samband sem þær hagnist báðar á. Innrás japanska hersins í Kína árið 1931 og fjórtán ára hernám sem fylgdi í kjölfarið hefur allar götur síðan verið stöðug uppspretta spennu milli þjóðanna.

Ræða Wen, sem er sú fyrsta sem kínverskur leiðtogi heldur í japanska þinginu í rúm tuttugu ár, stóð yfir í fjörtíu mínútur og meðtók forsætisráðherrann þær afsakanir sem japanskir ráðamenn hafa sett fram vegna innrásarinnar. Hann ítrekaði þó að afsökunum þyrftu að fylgja aðgerðir. Stjórnmálaskýrendur telja að forsætisráðherrann hafi verið að vísa í heimsóknir japanskra ráðamanna til Yasakuni-minnismerkisins. Yasakuni er helgað minningu fallinna hermanna, þeirra á meðal dæmdra stríðsglæpamanna, en er í augum margra einhverskonar táknmynd japanskrar þjóðernishyggju á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Þrátt fyrir að hafa ekki skautað framhjá þessum eldfima þætti í samskiptum þjóðanna í ræðu sinni lagði forsætisráðherrann áherslu á veigamikið hlutverk Japana í þeirri miklu efnahagsuppbyggingu sem hefur átt sér stað í Kína undanfarna áratugi en Japanar eru mikilvægasta viðskiptaþjóð Kínverja. Jafnframt boðaði Wen enn nánari efnahagsleg tengsl og aukningu í menningarsamskiptum og auk þess mælti hann fyrir nauðsyn þess að ríkin tvö leystu deilur sínar um eignarhald á gaslindum í Austur-Kínahafi á friðsamlegan hátt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.