Heildar útsvarstekjur sveitarfélaganna námu ríflega 172,2 milljörðum króna í fyrra. Árið 2014 námu tekjurnar tæplega 159,1 milljarði. Tekjurnar aukast því um tæplega 13,1 milljarð króna á milli ára eða 8,3%. Aukningin skýrist meðal annars af töluverðum launahækkunum milli ára.  Verðvísitala samneyslu, sem mælir verð á vörum, þjónustu og vinnuafli sem opinberir aðilar kaupa, hækkaði um 6,7% á milli áranna 2014 og 2015.

Útsvarið er lang stærsti einstaki tekjuliður sveitarfélaga og stóð það undir 58% af tekjum sveitarsjóða á síðasta ári. Þjónustutekjur stóðu undir 16% teknanna, framlög frá jöfnunarsjóði stóðu undir 13% teknanna, fasteignaskattar 11% og lóðarleiga 2%.
Lög kveða á um að lágmarksútsvar vegna tekna ársins 2015 sé 12,44% og hámarksútsvar 14,52%. Af 74 sveitarfélögum voru 57 með útsvarið í botni í fyrra eða í 14,52. Eitt af þessum sveitarfélögum var reyndar með útsvarið hærra en lög kveða á um en það var Reykjanesbær. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu fengu bæjaryfirvöld sérstaka heimild til hækka útsvarsprósentuna í 15,05%.

útsvar
útsvar

Íbúar Fjarðabyggðar greiða mest

Þegar útsvar er reiknað á hvern íbúa kemur í ljós að líkt og í fyrra greiða íbúar Fjarðabyggðar að meðaltali mest eða tæpar 611 þúsund krónur. Íbúar á Seltjarnarnesi greiða næsthæsta útsvarið eða 591 þúsund. Garðbæingar koma þar á eftir með tæpar 566 þúsund og þar á eftir koma íbúar í Árneshreppi og Fjallabyggð með um það bil 562 þúsund krónur. Í Árneshreppi búa aðeins 55 manns en í hinum sveitarfélögunum fjórum eru íbúarnir tvö þúsund eða fleiri.

Íbúar í Akrahreppi á Norðurlandi vestra greiða lægsta útsvarið eða að meðaltali 347 þúsund krónur hver. Í Grímsnes- og Grafningshreppi greiðir hver íbúi um það bil 352 þúsund, í Skagabyggð hver íbúi 364 þúsund en þar á eftir koma íbúar í Helgafellssveit með tæplega 377 þúsund og íbúar í Húnavatnshreppi með tæplega 379 þúsund. Þessi fimm sveitarfélög eru öll með færri en 500 íbúa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .