Bandarískir neytendur eru nú töluvert svartsýnni á horfur í efnahagsmálum þar í landi en fyrir mánuði ef marka má væntingavísitölu Michigan Háskóla, en vísitalan í september mælist 85,7 stig, sem er 6,7% lækkun frá ágústmánuði, þegar vísitalan var í 91,9 stigi. Í frétt Wall Street Journal segir að neytendur geri nú ráð fyrir því að hagkerfi Bandaríkjanna standi veikari fótum en áður, m.a. vegna minnkandi hagvaxtar á heimsvísu og að þeir séu svartsýnni á þróun vinnumarkaðar en áður.

Þetta er síðasta mæling væntinga bandarískra neytenda áður en stjórn bandaríska seðlabankans hittist í næstu viku til að ákveða hvort hækka eigi stýrivexti. Í síðasta mánuði sagði bankastjóri seðlabankans í New York, William Dudley, að væntingar neytenda myndu skipta miklu máli við mat á því hvort sveiflur á markaði og efnahagsleg vandamál utan Bandaríkjanna hefðu áhrif á heimahagkerfið.

Í frétt WSJ er haft eftir Millan Mulraine, hagfræðingi hjá TD Securities, að bandarískir neytendur séu nú mun varkárari varðandi þróun efnahagsmála og að seðlabankinn hljóti að taka það til greina við vaxtaákvörðun sína.