Væntingavísitala Gallup hækkaði um tæp átta stig á milli mánaða í febrúar og stendur hún nú í 85,9 stigum. Vísitalan var síðast á þessum slóðum í júní í fyrra. Í febrúar í fyrra mældist hún 80,7 stig. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að þótt um jákvæða þróun sé að ræða þá sé enn nokkuð í land að íslenskir neytendur séu bjartsýnir á ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar enda þurfi vísitalan að mælast yfir 100 stigin.

Greiningin bendir á að fyrir hrun var allsterk fylgni milli gengishreyfinga krónu og væntingavísitölunnar. Fylgnin dofnaði nokkuð í kjölfar hrunsins en þó virðist hún enn vera talsverð. Hækkun vísitölunnar nú gæti því tengst styrkingu krónunnar frá nóvember síðastliðnum.

Greining Íslandsbanka segir skiptingu svara eftir tekjuhópum nokkuð athyglisverða. Þannig lækki væntingavísitalan talsvert bæði hjá þeim tekjulægstu, þ.e. hjá þeim svarendum sem hafa tekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði, og þeim tekjuhæstu, sem hafa tekjur upp á a.m.k. 550 þúsund á mánuði. Þannig mælist vísitalan hjá fyrrnefnda hópnum 63,5 stig en 91,6 stig hjá þeim síðarnefnda. Á hinn bóginn glæðist væntingar talsvert hjá millitekju hópunum, þ.e. þeim sem eru með tekjur á bilinu 250-399 þúsund á mánuði og þeim sem eru með tekjur upp á 400-549 þúsund.