Magnús Harðarson – nýráðinn forstjóri Kauphallarinnar – segir afar mikilvægt að Alþingi innleiði reglugerð evrópusambandsins um verðbréfamiðstöðvar tímanlega svo hægt sé að gera nauðsynlegar úrbætur á innviðum íslensks verðbréfamarkaðar. Afar mikið sé í húfi fyrir markaðinn og hagkerfið allt.

Starfsemi Nasdaq hér á landi skiptist í tvö hlutverk og tvö fyrirtæki. Kauphöll Íslands, og Nasdaq Verðbréfamiðstöð, systurfélag hennar, sem sér um uppgjör og varðveislu verðbréfa, bæði fyrir skráð félög og önnur. Hún fær alla jafna mun minni athygli en Kauphöllin í almennri umræðu, en starfsemi hennar myndar grundvöll fyrir skipulegum verðbréfamarkaði.

„Verðbréfamiðstöðin er að skipta um kerfi og sameinast Nasdaq CSD sem á verðbréfamiðstöðvarnar í Eystrasaltsríkjunum þremur og hefur svo fyrirætlanir um að vaxa frekar. Þessi kerfisskipti og þessar tengingar sem fást í gegn um verðbréfamiðstöðina munu auðvelda erlendum aðilum mjög aðgang að íslenskum markaði. Umhverfið verður mun staðlaðara og meira í líkingu við það sem tíðkast á þeim mörkuðum sem þeir þekkja,“ en Magnús segir þetta algjört grundvallaratriði í að laða að erlenda fjárfesta.

Aðsóknin strandað á uppgjörsferlinu
Þótt fleiri þættir hafi áhrif telur Magnús þetta vera stóran þátt skýringarinnar á því hvers vegna aðsókn erlendra fjárfesta hafi ekki verið meiri, sérstaklega frá því innflæðishöft á skuldabréfamarkað voru afnumin í mars á þessu ári. „Áhuginn er til staðar. Á undanförnum mánuðum höfum við fundið fyrir meiri áhuga frá erlendum fjárfestum, verðbréfafyrirtækjum og bönkum á að stunda hér bein viðskipti en við höfum fundið frá því fyrir hrun, og jafnvel lengur.“

Viðræður við slíka aðila um fjárfestingu hér á landi sigli hinsvegar mjög oft í strand þegar að því komi að útskýra hið séríslenska uppgjörsferli. „Ekki vegna þess að þeir hafi ekki áhuga á íslenska markaðnum, heldur vegna þess að uppgjörsinnviðirnir eru bara ekki nógu góðir. Þetta stoppar auðvitað ekki alla, en það myndi breyta rosalega miklu að menn þyrftu ekki að nánast brjóta sér leið inn á markaðinn. Sá hópur sem ekki hefur nógu einbeittan vilja til þess, en gæti samt vel hugsað sér að fjárfesta hér, er mun stærri en þeir sem eru tilbúnir að standa í þessu eins og þetta er í dag.“

Gæti frestast um ár
Breytingarnar eru þó ekki í höfn enn. Til stendur að þær taki gildi í maímánuði næstkomandi, en til þess þarf Alþingi að vera búið að samþykkja evrópsku verðbréfarmiðstöðvaeglugerðina. „Kerfisskiptin hanga á sameiningunni við Nasdaq CSD, sem aftur hangir á innleiðingu reglugerðarinnar hér á landi. Hún átti að vera afgreidd núna fyrir áramót, en það gekk ekki eftir.“

Til stendur að málið verði tekið fyrir þegar þingið kemur saman á ný, en til þess að breytingin geti gengið eftir þarf að vera búið að samþykkja lögin fyrir miðjan febrúar. Náist það ekki gæti hún frestast um ár. „Verðbréfamiðstöðin er því í stórhættu á að ná ekki að innleiða þessar breytingar vegna þessarar tafar við innleiðingu reglugerðarinnar. Það væri bæði blóðugt og grátlegt – þegar maður finnur fyrir svona miklum erlendum áhuga – að missa þetta úr höndunum vegna þessara tafa.“

Nánar er rætt við Magnús í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak hér .