Stjórn Skeljungs hefur gengið frá ráðningu Valgeirs M. Baldurssonar, framkvæmdastjóra neytendasviðs félagsins, í stöðu forstjóra. Hann tekur við starfinu af Einari Erni Ólafssyni sem sagði nýverið upp. Einar mun starfa sem forstjóri til 9. maí næstkomandi og tekur Valgeir þá við. Einar mun svo starfa áfram hjá Skeljungi til 30. maí og sinna tilfallandi verkefnum fyrir félagið eftir það.

Fram kemur í tilkynningu að Valgeir hefur starfað hjá Skeljungi í fimm ár, fyrst sem fjármálastjóri félagsins en síðustu tvö árin á neytendasviði.  Valgeir hefur viðamikla reynslu úr íslensku viðskiptalífi, en hann hefur meðal annars gengt stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs SPRON, ráðgjafa hjá KPMG og verið meðeigandi og framkvæmdastjóri Álits ehf.

„Við erum afar ánægð með að hafa fengið Valgeir til að taka að sér verkefni forstjóra Skeljungs.  Bæði þekkir hann félagið ákaflega vel og þá hefur hann náð góðum árangri í þeim fjölbreyttu verkefnum sem hann hefur sinnt hjá Skeljungi. Við bindum því miklar vonir við að Skeljungur muni eflast enn frekar undir hans stjórn,“ segir Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformaður Skeljungs.

Valgeir nam viðskipta- og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og lauk MBA gráðu frá Háskólann í Reykjavík 2007.  Valgeir er kvæntur Vilborgu Eddu Torfadóttur og eiga þau tvær dætur.