Í dag kemur út hið árlega blað Time Magazine þar sem áhugaverðustu uppfinningar (coolest inventions) ársins eru kynntar. Að mati Time Magazine er Rheo hátæknihnéð frá Össuri ein af áhugaverðustu uppfinningum ársins 2004 á heimsvísu. Rheo hnéð er hér í góðum hópi snjallra nýjunga því að meðal áhugaverðustu uppfinninga Time Magazine 2004 eru t.d. linsa sem hægt er að græða í augu, myndavél sem hjálpar læknum að sjá bláæðar og HIV próf sem hægt er að taka með munnstroki.

Rheo hnéð, sem er rafeindastýrt gervihné með gervigreind, er byltingarkennd nýjung á sviði stoðtækni. Unnið hefur verið að þróun og prófunum á hnénu síðastliðin fjögur ár af hópi verkfræðinga hjá Össuri í samvinnu við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Boston í Bandaríkjunum. Hnéð notar nýja rafafls- og vökvaflæðitækni til að laga hreyfingu að gönguhraða notanda, sem er ný hönnun frá grunni.

"Það er okkur hjá Össuri mikið ánægjuefni að eiga eina af áhugaverðustu uppfinningum ársins 2004 samkvæmt Time Magazine, sem er virt blað um allan heim. Rheo verkefnið er stærsta og flóknasta þróunarverkefni sem Össur hefur ráðist í. Þetta er ekki einungis ný vara heldur ný tækni sem við erum að koma með á markaðinn og hnéð vekur svo sannarlega verðskuldaða athygli," segir Jón Sigurðsson forstjóri Össurar í tilkynningu frá félaginu.