Mánaðartekjur Vals Ragnarssonar, forstjóra Medis, voru 24,5 milljón króna. Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Í tekjublaðinu er miðað við álagningaskrár og tekið er fram að þær endurspegli ekki endilega föst laun viðkomandi.

Vilhelm Róbert Wessman er í öðru sæti á forstjóralistanum með ríflega 19 milljónir á mánuði. Þar á eftir situr Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa lónsins, með tæplega 12 milljónir. Í fjórða sæti listans er Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa með 8,5 milljónir króna.

Fjölnir Torfason, gistihúsaeigandi, Hala í Suðursveit, er í fimmta sæti með tæplega 8 milljónir á mánuði. Á eftir gististaðaeigandanum kemur Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, en hann er með 7,7 milljónir á mánuði, og þar fylgir fast á hæla hans í sjöunda sæti, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Forstjóri Landspítalans efstur

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, er efstur á lista Tekjublaðsins yfir embættismenn og forstjóra ríkisfyrirtækja. Hann er með 2,4 milljónir króna í mánaðartekjur. Á eftir honum kemur Gróa B. Jóhannesdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri með 2,2 milljónir króna.

Könnun Frjálsrar verslunar byggir á útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur. Þá þurfa tölurnar ekki að endurspegla föst laun í fyrra þar sem allar tekjur ákvarða útsvar. Þær gætu verið fyrir setu í nefndum, önnur aukastörf og vegna kaupréttarsamninga. Jafnvel hafa margir tekið út séreignarsparnað.