Samkvæmt skýrslunni eru töluverðar líkur á skarpri niðursveiflu í Bandaríkjunum en fram til þessa hafa sérfræðingar sjóðsins spáð því að bæði Bandaríkin og alþjóðahagkerfið myndu sleppa við að renna inn í samdráttarskeið.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Charles Collyns, aðstoðarframkvæmdastjóra sjóðsins, að það sé skýrt að jafn alvarlegt ástand hafi ekki komið upp á fjármálamörkuðum síðan á fjórða áratug nýliðinnar aldar og það sé meiriháttar ógn við áframhaldandi hagvöxt.

Það sem vekur athygli við lestur skýrslunnar er ekki eingöngu það að hún afhjúpar svartsýnni mat á stöðu mála heldur einnig að hún nær bara til fyrsta fjórðungs þessa árs.

Sem kunnugt er hefur ástand mála á fjármálamörkuðum versnað til muna síðan þá og segja má að streitan á fjármálamörkuðum hafi aldrei verið meiri en nú.

Hins vegar er tekið fram í skýrslunni að slagkraftur í raunhagkerfinu og vaxtalækkanir hafi að einhverju leyti unnið gegn ofangreindri þróun. Þó þarf að hafa í huga að frá og með fyrsta fjórðungi hafa fjölmörg áföll dunið yfir og óveðursský hrannast upp – einnig yfir raunhagkerfinu. Reyndar er ástandið svo alvarlegt að fullyrt er að bandaríski seðlabankinn vegi nú og meti þörfina á enn frekari lækkun stýrivaxta.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .