*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 7. mars 2021 10:12

Vannýtt tækifæri á erlendri grundu

Guðlaugur Þór Þórðarson segir íslensk fyrirtæki búa yfir reynslu og þekkingu sem geti nýst á á erlendum vettvangi.

Sveinn Ólafur Melsted
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ræðir Heimstorg Íslandsstofu, sem er ný upplýsinga- og samskiptagátt sem ætluð er fyrirtækjum sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar, í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. 

Guðlaugur Þór segir það ávallt hafa verið forgangsmál hjá sér að styðja við íslenskt atvinnulíf. „Við erum útflutningsþjóð sem lifir á því að selja vöru og þjónustu. Lengi vel var umræðan á þann veg að þróunarsamvinna og þátttaka íslenskra fyrirtækja í atvinnulífinu í þróunarlöndum væru andstæður." Það sé hins vegar mikill misskilningur. „Það eru löndin sjálf sem kalla eftir aðkomu íslenskra fyrirtækja og ef við Íslendingar værum í sömu stöðu og þau myndum við sömuleiðis kalla eftir slíku. Á sínum tíma þegar við vorum fátækari kölluðum við eftir erlendu samstarfi, þekkingu og fjárfestingu, og höfum notið góðs af því. Með þessu tökum við þátt í verðmætasköpun í þeim ríkjum sem við eigum í þróunarsamvinnu við, öllum til hagsbóta."

Hann bendir á að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tengist atvinnulífinu með beinum hætti. „Það blasir við að heimsmarkmiðin nást ekki án aðkomu atvinnulífsins, um það eru allir sem þekkingu hafa á sammála. Þannig er kjarninn í áttunda heimsmarkmiðinu að stuðla skuli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Þar höfum við Íslendingar mikið fram að færa, t.d. er kemur að endurnýtanlegri orku og sjálfbærum sjávarútvegi. Við höfum einnig hugvit og hátæknilausnir sem sömuleiðis geta nýst vel um allan heim, svo fáein dæmi séu tekin."

Uppbyggingarsjóðurinn vannýtt tækifæri

Guðlaugur Þór kveðst hafa fundið fyrir mikilli jákvæðni frá íslensku atvinnulífi í garð Heimstorgsins. „Ég er mjög ánægður með samstarf ráðuneytisins og atvinnulífsins við undirbúning Heimstorgsins. Það hefur margt breyst á skömmum tíma og það er búið að opna augu atvinnulífsins fyrir þeim tækifærum sem þróunarsamvinna felur í sér," segir ráðherrann og nefnir í því samhengi sjóð sem utanríkisráðuneytið setti nýlega á fót í samstarfi við atvinnulífið. „Þegar við, í samvinnu við íslenskt atvinnulíf, settum á fót samstarfssjóð við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fóru umsóknir í hann hægt af stað, en þeim fer sífellt fjölgandi. Ég er mjög ánægður með viðbrögðin og hvernig málin hafa verið að þróast í sjóðnum. Ég hef einnig verið mjög ánægður með samstarf okkar við atvinnulífið og ég hef séð miklar jákvæðar breytingar hvað það varðar á þeim árum sem ég verið utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra."

Hann telur Uppbyggingarsjóð EES vera tækifæri sem við höfum vannýtt hér á landi. „Nú erum við komin með okkar fulltrúa, Árna Pál Árnason, sem aðstoðarframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðsins. Hann hefur frá fyrsta degi beitt sér fyrir því að  kynna þá möguleika sem eru til staðar. Um leið höfum við verið að kortleggja betur hvernig við getum aðstoðað fyrirtæki við að nýta sér þá möguleika sem þar eru fyrir hendi," segir Guðlaugur Þór og bendir um leið á enn eina viðbótina í þessum efnum.

„Fyrir skemmstu hleyptum við af stokkunum sérstökum styrktarflokki hjá Tækniþróunarsjóði, svonefnt Þróunarfræ, sem mun veita frumkvöðlum forkönnunarstyrki til verkefna á sviði þróunarsamvinnu, einkum með tilliti til nýsköpunar á tímum COVID-19. Um er að ræða samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins," segir ráðherrann að lokum og hvetur áhugasöm íslensk fyrirtæki til að hafa samband við Heimstorg Íslandsstofu.

Nánar er rætt við Guðlaug Þór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér