Vantrauststillaga Þórs Saari var felld með 32 atkvæðum gegn 29. Einn þingmaður sat hjá og annar var ekki viðstaddur. Umræða um tillöguna og afgreiðsla málsins tók eina fimm tíma. Tillaga Þórs var önnur slík tillaga á tveimur vikum sem hann leggur fram, en ekki kom til að sú fyrri fengi afgreiðslu á Alþingi vegna þess að hann dró hana til baka.

Hart var tekist á um tillöguna í þingsal í dag, þótt þingmenn hafi margir farið um víðan völl í máli sínu. „ Hvers lags vitleysa er þetta? Þetta er skrípaleikur,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og sagði m.a. ríkisstjórn sín hafi unnið að því að gera þjóðarvilja að veruleika þrátt fyrir óbilgjarna gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Þá sagði Jóhanna stjórnarandstöðuna hafa ástundað svikabrigsl til að spilla fyrir ríkisstjórninni og væri vantrauststillagan í takt við það.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tókst svo á við Össur Skarphéðinsson , utanríkisráðherra. Ragnheiður fjallaði m.a. um landsdómsmálið og sagði þátt þeirra vera þeim til ævarandi skammar sem stóðu að því. „Þar tók steininn út þegar síðan var gert tilraun til að koma í veg fyrir það ódæði að draga til baka ákæru á hendur ákæru á hendur Geirs H. Haarde. Þá sat ríkisstjórnin hjá,“ sagði Ragnheiður.

„Ekki utanríkisráðherra!“ svaraði Össur.

Og því svaraði Ragnheiður: „Mér er slétt sama þótt hæstvirtur utanríkisráðherra gjammi hér fram. Hann er partur af ríkisstjórninni. Það fer honum þó stundum betur að þegja!“