„Það skiptir ekki höfuðmáli hvað aðildarfélögin eru mörg. Það sem skiptir máli er að samtökin eru öll undir sama þaki í Húsi atvinnulífsins og vinna vel saman, sameining getur átt sér stað ef hagkvæmt reynist,“ segir Björgólfur Jóhannsson, sem nýverið tók við af Vilmundi Jósefssyni sem formaður Samtaka aatvinnulífsins.

Rætt er við Björgólf í Morgunblaðinu í dag. Þar er hann m.a. spurður út í einföldun á skipulagi Samtaka atvinnulífsins og fækkun félaga undir einn hatt. Björgólfur segir það ekki hafa verið rétta nálgun.

„Aðildarfélögin mótast af þeim atvinnugreinum sem eru í landinu, eins og LÍÚ og Samtökum iðnaðarins, og þar eru eðlilega mismunandi áherslur. Það má ná fram aukinni hagræðingu í rekstri hússins bæði hjá SA og aðildarfélögunum en það er ekki forsenda að fækka aðildarfélögum. Fyrst og síðast sé ég tækifæri til að efla samtökin, ná þessum aðildarfélögum betur saman, setja fram skýra sýn, hvernig við viljum að atvinnulífið þróist til lengri tíma litið,“ segir hann.

Nokkur ár eru síðan farið var að ræða um sameiningu samtaka atvinnulífsins, svo sem SA og Viðskiptaráðs, og hefur m.a. Viðskiptablaðið skrifað um þær þreifingar. Spurður um þær hugmyndir segist Björgólfur hafa verið fylgjandi því lengi. Niðurstaðan hafi verið sú að fresta þeim hugmyndum í bili. Ekki sé útilokað hvað gerist síðar.