Ævar Þorsteinsson hefur nú eignast 100% hlut í Kraftvélum ehf. eftir að gengið var frá kaupum hans á dögunum á 33% hlut af meðeiganda hans Matthíasi Matthíassyni. Kaupverðið er trúnaðarmál.   Ævar keypti Kraftvélar af Páli Samúelssyni og fjölskyldu á síðari hluta árs 2005. Um mitt ár 2004 höfðu Kraftvélar fest kaup á danska félaginu KFD A/S en það er umboðsaðili Komatsu í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi. KFD A/S varð því dótturfyrirtæki Kraftvéla ehf., en skipuriti var síðar breytt þannig að félagið telst systurfélag Kraftvéla í dag. Undir Kraftvélar heyrir líka Kraftvélaleigan á Kjalarnesi.

Stuttu eftir kaup Ævars á Kraftvélum seldi hann 33% hlut til Matthíasar Matthíassonar sem tók við stjórn KFD A/S sem framkvæmdastjóri. Eftir eignaskiptin nú flytur Matthías með fjölskyldu sína til Íslands eftir áralanga útivist.

Ævar segist fyrst í stað taka við starfi Matthíasar ytra og verða þá starfandi stjórnarformaður í Kraftvélum í stað þess að vera forstjóri. Hann hyggst þó ekki flytja til Danmerkur, en verður þar meira og minna með annan fótinn.

Björn Jónsson mun halda utan um starfsemina á Íslandi þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri undanfarin ár.

Ævar segir vissulega hafa orðið samdrátt í Danmörku undanfarna mánuði eins og um allan heim. Samdrátturinn þar hafi þó verið með allt öðrum og vægari hætti en hér á landi þegar menn horfðu á markaðinn hrynja nánast á einni nóttu.

„Markaðurinn Danmörku hefur dregist saman í kringum 30%, en hér horfðum við einn daginn á 100% samdrátt og markaðurinn á Íslandi hvarf á einni nóttu. Í Danmörku erum við að horfa á markaðinn dragast saman frá 2007 um kannski 50%. Við erum því búnir að fækka mannskap þar úr um 100 og niður fyrir 70 manns."

Starfsmönnum Kraftvéla á Íslandi var fækkað um 25% á síðasta ári í kjölfar gengisfalls krónunnar á síðastliðnu vori. Björn Jónsson framkvæmdastjóri segir að nú séu allir starfsmenn í hlutastörfum fram á vor, en þá er vonast til að markaðurinn fari að glæðast.

„Við höfum verið að breyta áherslum og markmiðið er að þjónustudeildin okkar og vélaleigan standi að mestu undir rekstrinum. Sala á nýjum tækjum verður þá bara bónus."

Ævar segir að fyrstu mánuðir ársins séu að jafnaði lélegasti rekstartími ársins. Ástandið nú sé þó verra en að öllu jöfnu og það bætist ofan á kreppuna.

„Við höfum þó verið að ná gríðarlegum árangri í að minnka hjá okkur birgðirnar og höfum minnkað þær um nærri 70% á tæpu ári. Það er að töluverðu leyti með sölu véla úr landi," segir Ævar.