Í Kanada hvetja fjölmiðlar fólk nú til að sýna aðgát þegar það gefur fé til bágstaddra á hörmungarsvæðunum við Indlandshaf. Ekki hefur þó enn heyrst af stórfelldum svikum vegna fjársafnana sem nú standa yfir um allan heim.

Kanadískir fjölmiðlar benda á að umfangsmiklar safnanir hafi opnað greiða leið fyrir óprútna aðila til næla sér í stórfé með auðveldum hætti og með því að þykjast vera í hlutverki hjálparstofnana. Er fólk því varað við að láta fé af hendi rakna nema vera þess fullvisst að raunverulegar hjálparstofnanir standi þar á bak við. Þá er hvatt til þess að fólk noti fremur ávísanir ef því verði viðkomið, frekar en að gefa upp kortanúmer sín. Ekki hafa heyrst neinar fregnir af fjársvikum hérlendis vegna söfnunar fyrir bágstadda í Asíu. Ekki er þó óþekkt að fólk hafi í gegnum tíðina villt á sér heimildir og óskað eftir framlögum til hjálpar- og líknarstofnana á fölskum forsendum. Því er allur vari góður.