Varanlegur, langtímaeignaréttur á nýtingarheimildum á fiskistofnum er lykillinn að því að halda heilbrigði stofnanna.

Þetta kemur fram í nýrri, stórri rannsókn sem var í vikunni birt í hinu virta vísindariti Science.

Könnun á heimsvísu leiddi í ljós að meira en helmingi minni líkur eru á hruni stofna sem eru nýttir með kvótakerfi líkt og því sem þekkist á Íslandi. BBC segir frá þessu í kvöld.

„Ef aðgangur að miðum er óheftur fara menn í kapp við að veiða, sem mun leiða til hruns stofna,” segir forystumaður rannsóknarinnar, Christopher Costello. Hann er prófessor við háskólann í Santa Barbara í Kalforníu í Bandaríkjunum.

„Ef nýtingarheimildir eru færðar mönnum í hendur varanlega, myndast hvati til að standa vörð um þá eign og fara vel með,” segir Costello.

Rannsóknin tók til 11,135 sjálfstæðra svæða þar sem sjósókn er stunduð. Aðeins 121 þessara svæða notaðist við kvótakerfi líkt og tíðkast á Íslandi, eða við kerfi sem líktist því. Niðurstaðan er sú að stofnar sem eru veiddir með kvótakerfi eru meira en helmingi minna líklegir til að hrynja.

Þó vanmetur rannsóknin líklega styrkleika kvótakerfis, þar sem margir stofnanna sem eru veiddir eftir því fyrirkomulagi höfðu þegar hrunið eða verið ofveiddir áður en kvótakerfi var tekið upp. Þó eru fjölmörg dæmi um að stofnar hafi jafnað sig í kjölfar hruns, eftir að kvótakerfi var tekið upp.

„Á stöðum þar sem ekkert kvótakerfi er til staðar munu þeir sem sækja miðin alltaf ýta undir að veiðiheimildir verði auknar. Við komumst að því að þeir sem störfuðu undir kvótakerfi hvöttu jafnvel til þess að heildarafli yrði minnkaður, þar sem slíkar aðgerðir styðja við framtíðarvöxt stofnsins og þar sem hugsanlega auknar heimildir í náinni framtíð,” segir Costello.

Daniel Pauly, sem er prófessor í fiskihagfræði við háskólann í British Columbia segir að kvótakerfi með varanlegum eignarétti nýtingarheimilda sé engin töfralausn. Þó leysi þær ansi stórt vandamál.

„Hins vegar er ákveðin ósanngirni við útlhutun heimildanna, eigi að taka upp kerfi með þessum hætti. Sumir munu ekki fá heimildirnar í upphafi, og aðrir ekki.”