Elías Haraldsson, sem hefur starfað sem fasteignasali í ríflega þrjá áratugi, gekk á dögunum til liðs við Lind fasteignasölu. Hann kveðst alsæll með vistaskiptin.

„Mér líst mjög vel á nýja vinnustaðinn og samstarfsfólkið. Það er nýtt fyrir mér að vinna á jafn stórri fasteignasölu og Lind er, en ég hef ekki starfað fyrir svona stóra fasteignasölu áður. Mín upplifun hefur verið sú að ákveðin samþjöppun sé að eiga sér stað á markaðnum þar sem u.þ.b. 10 fasteignasölur, sem eru stórar og öflugar, fá stærstu og mest spennandi verkefnin inn á borð til sín. Það er því mjög ánægjulegt að vera orðinn hluti af einni öflugustu fasteignasölu landsins."

Líkt og fyrr segir á Elías að baki langan feril við sölu fasteigna og hefur hann starfað við það allt frá því að hann lét af störfum sem verslunarstjóri hjá fataversluninni Sævari Karli árið 1989. Hann hóf ferilinn á Fasteignamiðstöðinni og færði sig svo yfir á Hól fasteignasölu þegar hún var opnuð, þar sem hann var sölustjóri í fimm ár. Hann segir þetta eftirminnilegan tíma, enda hafi þetta verið fyrsta nýja fasteignasalan sem var opnuð í höfuðborginni í 10 ár. Árið 2000 stofnaði hann svo, ásamt félaga sínum, Húsavík fasteignasölu.

„Það skiptast á skin og skúrir í þessum bransa, enda sveiflast markaðurinn upp og niður með efnahagslífinu. Það var t.d. mjög krefjandi að starfa í þessum geira í bankahruninu. En heilt yfir hafa þessi ár mín í bransanum verið ánægjuleg. Mér hefur gengið vel, sloppið við óhöpp og því náð að byggja upp gott orðspor."

Elías á tvö uppkomin börn, stúlku og dreng, ásamt eiginkonu sinni heitinni, Kristbjörgu Marteinsdóttur. „Við eignuðumst saman tvö efnileg börn sem ég er afskaplega stoltur af. Dóttir mín á svo tvö börn sem afanum langar svo sannarlega að eiga fleiri góðar stundir með."

Elías er mikill íþróttaáhugamaður og átti handbolti hug hans allan á yngri árum. Var hann liðtækur á milli stanganna og á Elías að baki unglingalandsleiki. „Ég er fæddur og uppalinn í Hlíðunum og er því mikill Valsari. Ég spilaði handbolta upp yngri flokkana í Val með þekktum kempum á borð við Valdimar Grímsson, Geir Sveinsson, Júlíus Jónasson, Jakob Sigurðsson, Guðna Bergsson og fleiri góðum." Eru allir nema sá síðastnefndi, sem er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, fyrrverandi landsliðsmenn í handbolta. Má því segja að um sannkallaða gullkynslóð sé að ræða.

„Þarna myndaðist skemmtilegur vinahópur sem er enn samheldinn og höfum við í um tvo áratugi alltaf hist vikulega í hádegismat. Stuðningur þessa vinahóps reyndist mér ómetanlegur þegar konan mín féll frá. Það má því sannarlega segja að það sé gott að eiga svona góða félaga að."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .