Vatnsátöppunarfyrirtækið Icelandic Water Holdings fékk á dögunum lögbann á notkun fyrirtækisins Iceland Glacier Wonders á vörumerkinu Iceland Glacier. Jón Ólafsson er forstjóri Icelandic Water Holdings. Framkvæmdastjóri Iceland Glacier Wonders er Natalie Anne Stotter, áður Spork. Hún er dóttir stofnandans, hollenska fjárfestisins Otto Spork. Fyrirtækið rekur átöppunarverksmiðju í Vestmannaeyjum og framleiðir þar vatn á flöskum undir merkjum Sno Iceland Glacier Water.

Reisti vatnsverksmiðju á Snæfellsnesi

Spork stefndi á að reka átöppunarverksmiðju á Rifi á Snæfellsnesi árið 2007. Fyrirtækið Iceland Glacier Products reisti m.a. 7.000 fermetra verksmiðju þar og var vatnið ætlað til útflutnings. Fjármálayfirvöld í Kanada höfðu Spork hins vegar grunaðan lengi um misferli með fé úr þremur vogunarsjóðum félags sem hann stýrði í Kanada og frysti þá um langt skeið. Í desember árið 2011 var svo fyrirtæki Spork hér á landi úrskurðað gjaldþrota. Áformin fóru út um þúfur og missti fyrirtækið vatnsréttindi sín til 95 ára við Snæfellsbæ. Spork, dóttir hans og mágur voru svo um mitt ár 2012 dæmd fyrir verðbréfasvik og gert að greiða jafnvirði 170 milljóna króna í sekt. Auk þessa var þeim þremur meinað að eiga eiga viðskipti með verðbréf.

Keypti vörumerkið

Jón sagði í samtali við VB.is í sumar Iceland Water Holdings, sem framleiðir vatn á flöskum undir merkjum Icelandic Glacial, að skoðað hafi verið á sínum tíma að fara í mál við fyrirtæki Spork vegna þess hversu lík vörumerki fyrirtækjanna voru. Þegar fyrirtæki Spork varð gjaldþrota hafi í stað þess verið ákveðið að kaupa vörumerkið Iceland Glacier úr þrotabúi Iceland Glacier Products.

Vatnsverksmiðja Icelandic Water Holdings í Ölfusinu.
Vatnsverksmiðja Icelandic Water Holdings í Ölfusinu.
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)
Átöppunarverksmiðja Icelandic Water Holdings í Ölfusinu.