Breski bílaframleiðandinn Vauxhall, sem er breska útgáfan af Opel, hefur tilkynnt að frá og með 1. ágúst séu allir nýir bílar fyrirtækisins seldir með lífstíðarábyrgð. Gildir það meðan bílarnir eru í eigu upphaflegs kaupanda eða í allt að 100.000 mílna akstur (um 161.000 km). Hugmyndina sækja Vauxal-menn til Kia sem boðið hefur 7 ár ábyrgð á sínum bílum og hafa með því náð forystuhlutverki á breska markaðnum.

Þykir þetta útspil Vauxhall mjög djarft ekki síst í ljósi þess að fram til þessa hefur þessi bifreiðategund ekki verið hátt skrifuð meðal bílaáhugamanna og ítrekað lent í neðstu sætum í gæðakönnunum meðal bíleigenda. Nær ábyrgðin til vélar, stýrisbúnaðar, bremsubúnaðar og rafbúnaðar. Til að halda ábyrgðinni verða eigendur þó að koma árlega með bíla sína í skoðun hjá söluaðila, að því er fram kemur í Telegraph og á sú skoðun að vera ókeypis. Það er mjög ólíkt því sem þekkist vegna ábyrgðaskoðana hjá bílaumboðum á Íslandi sem greitt er fyrir fullu verði.

Auk lífstíðarábyrgðar fyrir fyrstu eigendur vinnur Vauxhall einnig að útvíkkun á hugmyndinni sem á að ná til endurkaupenda á notuðum Vauxhall bílum. Fyrirtækið hefur þó ekki kveðið endanlega upp úr um hvort lífstíðarábyrgðin muni líka ná til væntanlegs bensín/raf tvinnbílsins Ampera sem væntanlegur er á markað.