Kaupmáttur hefur vaxið á Íslandi að undanförnu þrátt fyrir aukna verðbólgu og stuðlar það að enn frekari vexti einkaneyslu sem hefur verið umtalsverður á síðustu misserum. Þetta kom fram í Morgnukornum Íslandsbanka í morgnu. Í júlí höfðu laun hækkað um 6,6% frá sama tíma í fyrra en almennt verðlag hækkaði um 3,5% yfir tímabilið. Kaupmáttur launa jókst því um 3% á tímabilinu. Laun hækkuðu um 0,4% í júlí samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Hækkunin stafar að stærstum hluta af samningsbundnum launahækkunum hjá hinu opinbera en lítið var um launaskrið á almennum markaði.

Spenna ríkir á íslenskum atvinnumarkaði. Eftirspurn er vaxandi og atvinnuleysi í landinu er mjög lítið eða aðeins um 2% af vinnuafli. Aukið launaskrið mun því að öllum líkindum gera vart við sig á næstu mánuðum og misserum en það táknar kostnaðarauka hjá fyrirtækjum í landinu. Verðbólguþrýstingur í hagkerfinu gæti því aukist af þessum sökum. Vaxandi verðbólga er sennilega framundan þegar horft er til næsta árs, sérstaklega ef og þegar gengi krónunnar lækkar.